LOT hefur heilsársflug milli Íslands og Varsjár

Ísland er þriðji nýi áfangastaðurinn sem LOT bætir við leiðakerfi sitt nú í ár. Áður hóf félagið flug milli Varsjár og Lissabon annars vegar og Kraká og Paris-Orly hins vegar. Það styrkir því KEF enn frekar sem öflugan tengiflugvöll að fá LOT í flugvallarsamfélagið með flug til Varsjá þar sem Warsaw Frederic Chopin-flugvöllur (WAW) er öflugur tengiflugvöllur. Með þessari nýju tengingu opnast fleiri möguleikar fyrir ferðalanga sem vilja sækja á nýjar slóðir.
Í tilkynningu á vef LOT er haft eftir Robert Ludera, yfirmanni leiðakerfis LOT, að Ísland hafi vakið sífellt meiri athygli ferðamanna fyrir einstaka náttúru og áhugaverða sögu. Vaxandi áhugi væri á ferðalögum milli Póllands og Íslands sem styðji einnig við nánari tengsl í viðskiptum, menningu og samgöngum. Nýja flugleiðin væri þó meira en bara einföld tenging. Vart hefði orðið við mikinn áhuga farþega frá Mið- og Austur-Evrópu um að nýta sér tengingar um Varsjá með LOT til Íslands.
„Við á Keflavíkurflugvelli hlökkum mikið til þess að eiga gott og kröftugt samstarf við LOT til langrar framtíðar,“ segir Grétar Már Garðarsson, forstöðumaður flugfélaga og markaðsmála á Keflavíkurflugvelli. „Það var afskaplega gaman að taka á móti fyrsta hópi farþega með félaginu og megi ferðir félagsins til og frá KEF verða sem flestar á komandi árum og áratugum.“
