KEF þar sem sögur fara á flug
Á síðustu árum hefur verið unnið markvisst að þróun Keflavíkurflugvallar. Hún snýst um að bæta aðstöðuna á vellinum til að tryggja gestum hans enn betri þjónustu og upplifun. Hluti af þessari þróun hefur verið opnun nýrra verslana og veitingastaða, auk uppfærslu á þeim sem fyrir eru, til þess að mæta betur fjölbreyttum þörfum gesta flugvallarins.
Á Keflavíkurflugvelli starfar fjöldi fyrirtækja sem reka fjölbreytta flóru verslana og veitingastaða. Í gegnum tíðina hafa þessi fyrirtæki staðið saman að því að markaðssetja sína þjónustu á vettvangi Markaðsráðs Keflavíkurflugvallar.
Markaðsráð Keflavíkurflugvallar og fyrirtækin sem að því standa eru stolt af þeirri þróun sem hefur átt sér stað á vellinum að undanförnu. Okkur finnst því mikilvægt að vekja athygli á því sem Keflavíkurflugvöllur hefur upp á að bjóða. Að þar sé hægt að gefa sér tíma til að njóta og slaka á áður en farið er á loft. Þetta höfum við gert með markaðsátaki undir yfirskriftinni: KEF – þar sem sögur fara á flug. Liður í því er meðal annars auglýsing sem birt var á undan áramótaskaupi Sjónvarpsins. Hún, auk fleiri aðgerða, miðar að því að styrkja Keflavíkurflugvöll sem áfangastað – stað þar sem farþegar vilja staldra við og njóta.
Fyrirtækin sem koma að markaðsráðinu standa saman að þessari kynningu og fjármögnun hennar. Þetta fyrirkomulag hefur lengi tíðkast á Keflavíkurflugvelli og tíðkast einnig í verslunarmiðstöðvum eins og Kringlunni og Smáralind.
Á sama tíma erum við meðvituð um að á flugvelli þarf alltaf að vinna að því að gera enn betur. Þess vegna höfum við unnið ötullega undanfarin ár í að móta framtíðina. Ávinningur af þeirri vinnu er byrjaður að koma í ljós með meira rými og bættri aðstöðu. Á nýju ári munu gestir flugvallarins finna enn betur fyrir þessum breytingum.
Velkomin á Keflavíkurflugvöll, þar sem sögur fara á flug.