Sýning til heiðurs Vigdísi Finnbogadóttur á Keflavíkurflugvelli

Sýningin ber heitið „Hjartans mál“ en á glervegg í salnum hafa verið settar upp myndir af Vigdísi frá ýmsum tímabilum í lífi hennar. Umhverfis myndirnar raðast orð á mörgum tungumálum sem öll lýsa Vigdísi.
Vigdís Finnbogadóttir hefur ætíð verið málsvari kvenréttinda, menningar, náttúru og tungumála hérlendis og á erlendri grundu og hefur unnið að framgangi þessara hjartans mála af elju og staðfestu.

Orðin sem valin voru til að lýsa Vigdísi voru til dæmis fyrirmynd, jafnrétti, brautryðjandi, viska og víðsýni. Vigdís hefur við ýmis tilefni sagt að tungumál séu lykill að heiminum. Orðin eru því endurtekin á fjöldamörgum tungumálum sem er vísun til þessa hjartans máls Vigdísar og líka til að endurspegla fjölbreytileika alþjóðasamfélagsins sem leggur leið sína um flugvöllinn.
Vigdís Finnbogadóttir skipar sérstakan sess í sögu Keflavíkurflugvallar. Hún var forseti Íslands þegar Flugstöð Leifs Eiríkssonar var opnuð og gaf hún flugstöðinni nafn við vígsluathöfn hennar 14. apríl 1987. Við það tilefni sagði Vigdís: „Hver vegur að heiman er vegurinn heim“ og líkti flugvellinum við hið gullna hlið að Íslandi.
Í ár eru 45 ár liðin síðan Vigdís Finnbogadóttir tók við embætti forseta Íslands en hún var fyrsti kjörni kvenforseti heims. Hún gegndi embætti forseta lýðveldisins í sextán ár, frá 1980-1996. Vigdís er velgjörðarsendiherra tungumála hjá Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna - UNESCO og gegnir því enn mikilvægu hlutverki á alþjóðavísu. Með því að setja upp þessa sýningu á Keflavíkurflugvelli, á vettvangi þar sem öll heimsins tungumál hljóma, er ævistarf Vigdísar kynnt fyrir gestum hvaðanæva að.
„Hjartans mál“ verður til sýningar á Keflavíkurflugvelli fram á sumar.