Samstæðan

Lykiltölur 2024
Farþegar
Fjöldi farþega um alla flugvelli Isavia nam rétt rúmlega 9 milljónum árið 2024, sem er 6,5% aukning frá árinu 2023. Fjölgun var mest á Keflavíkurflugvelli eða 7,1% og á Akureyrarflugvelli um 4,7%. Fækkun var hins vegar á Reykjavíkurflugvelli um 0,4% og um 0,8% á Egilsstaðaflugvelli. Heildarfjöldi millilandafarþega um íslenska áætlunarflugvelli árið 2024 fjölgaði úr tæplega 7,8 milljónum í rúmlega 8,3 milljónir, eða um 7,2% milli ára. Mest var fjölgunin á Akureyrarflugvelli en þar fjölgaði millilandafarþegum um 40,0%. Innanlandsfarþegum fækkaði á sama tíma úr tæplega 665 þúsund í rúmlega 652 þúsund, eða um 1,9%.
Flughreyfingar
Flughreyfingar á öllum flugvöllum Isavia voru rúmlega 138 þúsund árið 2024, sem er 4,7% fækkun frá árinu á undan. Hreyfingum fækkaði um 2,3% á Keflavíkurflugvelli, um 6,8% á Reykjavíkurflugvelli, um 7,5% á Akureyrarflugvelli og 4,3% á Egilsstaðaflugvelli. Flughreyfingar á milli landa voru tæplega 68 þúsund, sem er 4,5% aukning fá árinu 2023. Þar af var fjölgunin mest á Keflavíkurflugvelli eða tæp 5,0%. Innanlands fækkaði flughreyfingum úr tæplega 80 þúsund árið 2023 í rétt rúmar 70 þúsund árið 2024, eða um 12,1%. Það skýrist vegna minni umsvifa í einka-og kennsluflugi og snertilendingum.
Vöruflutningar
Árið 2024 fóru 61,6 þúsund tonn af vörum um flugvelli félagsins, sem er 1,3% minna magn en árið á undan. Vöruflutningar á milli landa voru rétt rúmlega 60 þúsund tonn, sem er um 1,1% minna magn en árið 2023. Vöruflutningar innanlands minnkuðu hins vegar á sama tíma um 9,5% eða úr 1.333 tonnum í rúmlega 1.207 tonn.
Flugumferð
Rúmlega 200 þúsund flugvélar fóru um íslenska flugstjórnarsvæðið árið 2024, sem er fjölgun um 5,2% frá árinu 2023. Alls voru flognir rúmlega 282 milljónir kílómetra í íslenska úthafsflugstjórnarsvæðinu árið 2024, eða 7,7% fleiri en árið á undan. Umferð til og frá landinu er 33,7% af umferðinni og yfirflug 66,3%. Rúmlega þriðjungur allrar flugumferðar á leið yfir Norður-Atlantshafið fer í gegnum íslenska flugstjórnarsvæðið sem er í umsjón Isavia ANS.
Isavia ohf.
Starfsemi Isavia ohf. snýst um rekstur, viðhald og uppbyggingu Keflavíkurflugvallar, sem er kjarninn í starfsemi félagsins. Flugvöllurinn er rekinn á viðskiptalegum forsendum í hörðu samkeppnisumhverfi, þar sem stærstu viðskiptatækifærin liggja en um leið mesta rekstraráhættan.
Þó að Isavia sé eitt af fjölmörgum fyrirtækjum sem starfa á Keflavíkurflugvelli, leiðir félagið flugvallarsamfélagið og vinnur markvisst með viðskiptafélögum sínum að sameiginlegum árangri. Með því að bjóða upp á einstaka upplifun og skilvirka, snjallvædda og góða þjónustu, höfum við viðskiptavini okkar í fyrirrúmi.
Keflavíkurflugvöllur er einn af lykilinnviðum landsins, og því er lögð áhersla á að byggja upp og viðhalda innviðum hans til lengri tíma, bæta stöðugt nýtingu auðlinda með arðsemi og langtímahagsmuni að leiðarljósi. Um leið er stuðlað að nýsköpun og stöðugri framþróun í starfseminni með sjálfbærni að leiðarljósi.
Dótturfélög
Við eigum þrjú sjálfstæð dótturfélög: ANS ehf., Innanlandsflugvellir ehf. og Fríhöfnin ehf. Þessi félög eru að fullu í eigu móðurfélagsins. Þau setja sér sína eigin fyrirtækjastefnur en vinna í samræmi við flestar stuðningsstefnur móðurfélagsins. Þetta er í takt við eigandastefnu dótturfélaga Isavia ohf. Framkvæmdastjórn hvers félags ber ábyrgð á að framfylgja sinni stefnu.

Sinnir flugleiðsöguþjónustu í innanlands- og alþjóðaflugi í flugleiðsögusvæði yfir Norður-Atlantshafi. Félagið rekur sértæka þjálfunardeild fyrir flugumferðarstjórn, flugfjarskipti, fluggagnafræði og flugupplýsingaþjónustu. Ásamt því að sinna flugprófunarverkefnum á Islandi, Grænlandi og Færeyjum.

Innanlandsflugvellir ehf. sér um rekstur íslenskra áætlunarflugvalla annarra en Keflavíkurflugvallar. Reksturinn grundvallast á þjónustusamningi félagsins við Innviðaráðuneytið sem ákvarðar þjónustustig flugvallanna, rekstur og viðhald, enda er um að ræða hluta af almenningssamgöngukerfi sem er í eigu ríkisins.

Fríhöfnin ehf. rekur fjórar verslanir með tollfrjálsan varning á Keflavíkurflugvelli samkvæmt rekstrarleyfissamningi við móðurfélagið Isavia. Þrjár þeirra eru fyrir brottfararfarþega og ein fyrir komufarþega.